Magadansdísirnar

Magadansdísirnar voru, meðal annarra, valdar af Hinu Húsinu til að vera á starfslaunum hjá Reykjavíkurborg í sumar við skapandi sumarstörf. Við sömdum og æfðum dansa og tróðum svo upp víðs vegar um borgina, almenningi oft að óvöru. Tilgangurinn hjá okkur var bæði að fræða og skemmta almenningi með þessu fallega listformi. Þessi síða er heimild um þá vinnu sem við unnuð í sumar. Magadansdísirnar eru nú, eftir sumarstarfið, aftur orðnar hluti af sýningarhópi Magadanshúss Josyar Zareen.

föstudagur, júní 11

Flippað Föstudagsflipp

Það var alveg magnað að sýna á Lækjartorgi, við sýndum sömu fjölbreyttu dagskrána tvisvar með klukkutíma millibili. Í fyrra skiptið var góður slatti af fólki á ferli en í seinna skiptið fannst mér torgið hreinlega fyllast af fólki. Þarna var fullt af ljósmyndurum, ég veit að tveir voru allavegana frá Hinu Húsinu og Morgunblaðinu en svo kom einhver sjónvarpsstöð og tók okkur upp að dansa!!!... kannski að maður verði í fréttum á RUV, aldrei að vita???
Þetta var svaka fjör, og ég hlakka bara mjög til þess að endurtaka leikinn 25.júní!

fimmtudagur, júní 10

Vesturbæjarlaug

Það var æðisleg tilfinning að vera á bakkanum á Vesturbæjarlauginni í gær og dansa utandyra í dýrðarveðrinu sem þá var. Þótt það hafi gengið mjög vel þá vorum við því miður bara þrjár, en Hrafnhildur er enn heima með hita!
Við fengum mjög breiðan og skemmtilegan áhorfendahóp, skólunum var greinilega lokið, þannig að laugin var full af krökkum, sem voru að hefja sumarfríin sín, eldri fastagestum laugarinnar og fleira fólki og viðtökurnar voru æðislegar.
Þegar við mættum á staðinn, var ljósmyndari Músarholunnar mættur á svæðið, eins og um var rætt, en þar var líka ljósmyndari Fréttablaðsins, okkur alveg að óvöru. Þegar við höfðum dansað það sem við höfðum ákveðið að dansa þarna á bakkanum og lögðum af stað í humátt að búningaklefunum, vorum við beðnar að dansa meira ... svo að við skelltum okkur bara aftur í dansstellingarnar og héldum áfram. Sem betur fer hafði ég óvart tekið með mér meiri tónlist.
Þetta var æðislegt, þetta sumar er æðislegt!

miðvikudagur, júní 9

Ballið byrjar

Jæja, þá byrjar ballið, við hefjum sýningarlotuna í dag og hún helst vonandi í einni strikklotu til 7.júlí. Þetta gengur alveg vonum framar hjá okkur, við erum bókaðar með "gigg" alla daga fram til 19.júní og í dag verður prófraunin í Vesturbæjarlaug kl.14 ... kannski að við ættum samt að taka okkur 1-2 frídaga á tímabilinu, þar sem við sýnum ekki, en æfum bara ... eða förum í sund?

þriðjudagur, júní 8

Ljósmyndasessjón

Við Magadansdísirnar fórum á heillangt ljósmyndasessjón í dag (í gær). Ljósmyndari Músargildru Hins Hússins kom í Magadanshúsið, þar sem við stilltum okkur upp, í eyðimörkinni, í fullum skrúða, en myndirnar verða meðal annars notaðar í Grapevine sem á að koma út á föstudaginn!
Eftir að ljósmyndarinn fór, héldum við sessjóninu áfram, vegna þess að Sunna hafði komið með myndavélina sína. Við vorum mjög lengi að, loksins fengum við stelpu, sem var að bíða eftir að æfing hjá Josy byrjaði, til að smella af (fullt af) myndum af okkur öllum saman.
Aumingja Hrafnhildur var alveg að mygla vegna þess að hún var orðin veik og komin með hita ... en hún var algjör hetja að halda þetta út með okkur.
Svo koma myndirnar vonandi bara sem allra fyrst inná síðuna hjá okkur!

mánudagur, júní 7

Sunnudagsæfing

Þetta verkefni er svo spennandi, við dísirnar höfum verið alveg á kafi undanfarna viku og erum alveg að fíla okkur í tætlur. Ég hef lært svo mikið óskilt magadansi á þessarri fyrstu viku, er til dæmis orðin mellufær í html-i, css-i og hex-litum! ... mjög áhugavert!
Annars hófum við þessa viku í dag, á langri magadansæfingu í Magadanshúsinu, undirbjuggum upptoðninga vikunnar og tókum dramatískar búningaákvarðanir.
Nú er bara að standa sig, við höfum fengið svo jákvæð viðbrögð við verkefninu og framundan eru fundir, æfingar, bókanir, sýningar og ljósmyndanir og hver veit hvað fleira?