Magadansdísirnar

Magadansdísirnar voru, meðal annarra, valdar af Hinu Húsinu til að vera á starfslaunum hjá Reykjavíkurborg í sumar við skapandi sumarstörf. Við sömdum og æfðum dansa og tróðum svo upp víðs vegar um borgina, almenningi oft að óvöru. Tilgangurinn hjá okkur var bæði að fræða og skemmta almenningi með þessu fallega listformi. Þessi síða er heimild um þá vinnu sem við unnuð í sumar. Magadansdísirnar eru nú, eftir sumarstarfið, aftur orðnar hluti af sýningarhópi Magadanshúss Josyar Zareen.

mánudagur, júlí 5

Uppgjör fyrir lokadaginn

Ég er að átta mig á því að tímabilinu okkar í þessu skemmtilega starfi hjá Hinu Húsinu er alveg að ljúka. Það eru bara þrír dagar eftir ... það verður voða skrýtið að hætta þegar við höfum verið í svona mikilli törn ... manni finnst þetta bara vera orðinn hluti af eðlilegu, daglegu lífi, að sýna magadans fyrir gestum og gangandi, sífellt að koma nýju fólki á óvart.
Ég get ekki sagt annað en að tímabilið hefi verið hið skemmtilegasta og lærdómsríkasta. Við stelpurnar í hópnum höfum kynnst enn betur en við gerðum og magadans er orðið aðeins þekktara fyrirbæri fyrir vikið. Ég vona að eftir törnina okkar í skapandi sumarhópunum munum við halda áfram samstarfi Magadansdísanna að einhverju leiti ...

Fyrir þá sem bíða örvæntingafullir eftir nýjum myndum af dísunum í myndaalbúminu okkar, þá eru myndir vonandi væntanlegar hvað úr hverju til okkar frá ýmsum aðilum.

Annars er það títt að við höfum verið að dansa undanfarið í nýju dísarbúningunum okkar, en það eru þægilegir toppar og falleg pils með peningabeltum ... og við erum allar í stíl, hver í sínum lit, við köllum þá blómabúningana okkar ... voða fínar!
Í gær dönsuðum við einmitt í búningunum, á einu því skemmtilegasta "giggi" hingað til ... á götumarkaði Klink og Bank ... stemningin var svo frábær, það hættu allir því sem þeir voru að gera og vildu ekki að við hættum. Við vorum mjög snortnar yfir viðbrögðunum og góðum anda.

Eins og ég sagði, þá eru þrír dagar eftir og nú gefum við allt í botn fyrir lokasprettinn!