Magadansdísirnar

Magadansdísirnar voru, meðal annarra, valdar af Hinu Húsinu til að vera á starfslaunum hjá Reykjavíkurborg í sumar við skapandi sumarstörf. Við sömdum og æfðum dansa og tróðum svo upp víðs vegar um borgina, almenningi oft að óvöru. Tilgangurinn hjá okkur var bæði að fræða og skemmta almenningi með þessu fallega listformi. Þessi síða er heimild um þá vinnu sem við unnuð í sumar. Magadansdísirnar eru nú, eftir sumarstarfið, aftur orðnar hluti af sýningarhópi Magadanshúss Josyar Zareen.

laugardagur, júní 19

Magadans í íslenska þjóðbúningnum

Á Þjóðhátíðardaginn dönsuðum, niðrí miðbæ Reykjavíkur, við frumsaminn slæðudans og umbreyttan hópdans í búningum sem minntu á íslenska þjóðbúninginn við góðar undirtektir. Við höfum ákveðið að endurtaka leikinn á morgun (sunnudag) í Listasafni Reykjavíkur - Kjarvalsstöðum kl.12 fyrir þá sem misstu af okkur á 17.júní.

Annars munum við líka gera dansinn í dag í Hafnarhúsinu, en þá verðum við bara tvær, sökum anna hjá hinum ...

miðvikudagur, júní 16

Minnisleysi

Við komum fram í Ísland í bítið í morgun. Þar dönsuðum við bæði og töluðum .... eða ég talaði réttara sagt. Ég talaði og talaði, en ekki um það sem ég ætlaði að tala ... ég sagði frá Hinu Húsinu og Magadanshúsinu og svo talaði ég um magadans almennt, kynnti svo dansinn sem við vorum að fara að dansa ... en gleymdi alveg að segja það sem við komum í þáttinn til að segja. Við vildum nefnilega auglýsa Listasafnssýningarnar okkar allar helgar fram að 4.júlí. Ég gleymdi meira að segja að segja frá heimasíðunni okkar, sem hefði kannski reddað mér smá!!!

Viljiði gera mér greiða, þeir sem lesa þetta, komiði endilega í Listasafn Reykjavíkur um helgina og sjáið okkur dansa í:
Hafnarhúsinu á laugardaginn klukkan 14 og
Kjarvalsstöðum á sunnudaginn klukkan 12 ...

Takk Kristína.

þriðjudagur, júní 15

Fjölmiðlafár

Vá, við erum ekki búnar að vera nógu duglegar að fygjast með fjölmiðlunum. Við höfum víst verið voða mikið í þeim undanfarna daga, ég hef séð tvær myndir af okkur í blöðunum en frétt af fleiru, þetta er listi yfir þá fjölmiðla sem ég veit að við höfum birst í:

Fréttablaðið - mynd frá því að við dönsuðum á bakka Vesturbæjarlaugar
Grapevine - uppstillt hópmynd af okkur sem ljósmyndari Hins Hússins tók
Morgunblaðið - mynd frá Föstudagsflippinu þar sem við dönsuðum á Lækjartorgi
Sjónvarpið - mynd af okkur að dansa á Lækjartorgi í lok fréttatímans
Stöð 2 - myndir af okkur að dansa á meðan fjallað var um Föstudagsflippið

Á næstunni:
Stöð 2 - við munum dansa í Ísland í bítið í fyrramálið
Séð og Heyrt - þar koma myndir og umfjöllun um hópinn bráðum

Og hver veit hvar við komum svo fram næst ...

Karatefélagið Þórshamar bjargar Dísunum

Nú þegar standa yfir strangar æfingar í Magadanshúsinu vegna 17.júní, sáum við ekki framá að geta samið og æft 17.júní atriðið okkar í húsinu á skikkanlegum tíma. Magadansdísirnar leituðu því til Karatefélagsins Þórshamars til bjargar, sem eru bara í næsta húsi, og þeir réttu fram hjálparhönd.
Þórshamar við erum í þakkarskuld við ykkur, þið eruð æði. Þvílíkir öðlingar!

mánudagur, júní 14

Sunnudagur til sælu

Sunnudagur var langur vinnudagur hjá okkur stelpunum.
Hann byrjaði í rauninni á laugardeginum, þegar við vorum langt fram á nótt að leggja lokahönd á búningana okkar fyrir daginn. Við ákváðum nefnilega að prufukeyra 17.júní-pilsin okkar og gerðum hanska í stíl.

12:00 Fyrsta sýningin var í Listasafni Reykjavíkur - Kjarvalsstöðum ... það var mjög fámennt, ég held ég hafi talið átta áhorfendur, þar af voru tveir starfsmenn safnsins! En vonandi fáum við meiri traffík þangað næst vegna þess að rýmið þar er tilvalið til að dansa í.

14:00 Næst dönsuðum við í Árbæjarlaug, það var allt önnur upplifun. Við röðuðum okkur í kringum innilaugina og dönsuðum fyrir laugargestina. Það var æðislegt, það var eitthvað svo töfrandi að vera þarna í birtunni sem endurspeglaðist á vatninu og glerhúsinu með tónlist sem bergmáliaði um allt. Það var líka alveg fullt af fólki í sundi og góð stemning.

15:00 Síðast dönsuðum við á Árbæjarsafni, þar var hvassur skúr og blautt gras ... en við ákváðum samt að dansa úti, þó að okkur hefði boðist að dansa inni! Við dönsuðum alveg heillengi í blautu grasinu fyrir gesti og starfsmenn safnsins við góðar undirtektir. Þau voru greinilega alveg að kaupa allar andstæðurnar sem voru í gangi þarna.
Ljósmyndari Séð og Heyrt kom og tók nokkrar skemmtilegar myndir af okkur og lopapeysunum, en að því loknu bauð safnið okkur uppá að koma inn á hlýjuna og gæða okkur á lummum og heitu kakói við fiðluleik, sem var vel þegið!

Restin af deginum og kvöldinu fór í að klára að semja 17.júní atriðið okkar og klára búningana fyrir það. Framundan er svo að gera enn einn hópbúninginn og semja annann dans fyrir Ráðhússýninguna ... auk þess að halda áfram að sýna út um allt.